Stórir Draumar
Höfundurinn að baki bókaflokknum Litla fólkið og stóru draumarnir er spænski rithöfundurinn og listamaðurinn Maria Isabel Sánchez Vegara. Hún ólst upp í Barselóna á áttunda áratugnum og Lína langsokkur, Momo og Skellibjalla í ævintýrunum um Pétur Pan voru í miklu uppáhaldi hjá henni.
Hún átti sér draum um að verða rithöfundur. Það tók hana nærri 40 ár og nánast allt það sparifé sem hún átti að láta drauminn rætast. Hún hafði unnið í auglýsingageiranum í tuttugu ár þegar hún árið 2012 gaf út sína fyrstu bók, upp á eigin spýtur. Tveimur árum síðar gaf hún út bók sem í fyrstu var hugsuð sem gjöf til nýfæddra frændsystkina sinna, tvíburanna Ölbu og Claudiu. Það reyndist fyrsta bókin í flokknum um Litla fólkið og stóru draumana.
Frá þeim tíma hefur bókaflokkurinn vaxið og dafnað og hafa bækur í honum verið þýddar á þriðja tug tungumála og prentaðar í yfir sex milljónum eintaka.
Litla fólkið og stóru draumarnir koma nú út í fyrsta sinn á íslensku en hugmyndin að því að gera bókaflokkinn aðgengilegan íslenskum lesendum kviknaði í barnaverslun í London árið 2019. Þar rákust stofnendur Stórra drauma á ævisögur Marie Curie og Ameliu Erhardt í hinni dásamlegu barnaverslun Trotters í London. Bækurnar heilluðu sannarlega og við fundum okkur knúin til að gera bækurnar aðgengilegar fyrir íslensk börn og aðstandendur þeirra.
Draumarnir verða ekki að veruleika nema maður láti sig dreyma og geri drauma sína að veruleika. Það er af þeirri ástæðu sem Litla fólkið og stóru draumarnir eru nú komnir út á íslensku. Ný bók í hverjum mánuði til þess að gleðja og fræða börn á öllum aldri, sem og foreldra og ömmur og afa sem vilja bjóða börnum upp á vandað efni um fólk sem hefur áorkað miklu í lífinu.
Til að hafa samband við Stóra drauma er hægt að senda tölvupóst á draumar@storirdraumar.is.